top of page

Hvað er næringarinnsæi?

*Næringarinnsæi (e. Intuitive Eating) er vísindaleg nálgun á heildræna heilsu sem var þróuð af tveimur næringarfræðingum, þeim Evelyn Tribole og Elyse Resch árið1995. Nálgunin hefur þróast yfir árin en um 120 rannsóknir sanna ágæti hennar í dag.


Næringarinnsæis-nálgunin saman stendur af 10 tilmælum (ekki reglum) sem annað hvort hjálpa til við að þróa með sér líkamsvitund eða fjarlægja hindranir sem standa í vegi fyrir líkamsvitund. Næringarinnsæi er persónuleg vegferð í átt að heilsu þar sem við notum merki líkamans til þess að svara líkamlegum og andlegum þörfum okkar.


Næringarinnsæi hjálpar okkur að öðlast heilbrigt samband við mat og líkama. Við erum hvött til þess að hugsa vel um okkur og stunda heilsusamlega hegðun. Næringarinnsæi snýst um að svara merkjum líkamans um svengd og seddu, sættast við mat (engin matur bannaður), tala fallega um okkur og aðra, sýna líkama okkar virðingu, læra fjölbreytt bjargráð við erfiðum tilfinningum, hreyfa okkur fyrir hreysti og borða næringarríkan mat sem okkur líður vel af ofl. Þessi nálgun á heilsu snýst um svo miklu meira en það sem við látum ofan í okkur.Hvað er næringarinnsæi ekki?


Næringarinnsæi er ekki megrunarkúr eða eitthvað sérstakt kerfi til þess að fylgja. Þú þarft ekki að telja kaloríur eða einhver orkuefni. Þú þarft ekki að ná einhverju ákveðnu markmiði á hverjum degi með næringarinnsæi. Þér getur ekki mistekist með næringarinnsæi því að þetta er lífslöng lærdómsvegferð þar sem þú lærir inná og heiðrar líkamann (og þig alla/allan) eins og hann er í dag.


*unnið upp úr Definition of Intuitive Eating - Intuitive Eating og What is Intuitive Eating? - Intuitive Eating með leyfi frá höfundum.

 

Vegferð næringarinnæis er þrískipt

Að mínu mati er vegferð næringarinnsæis eða heilbrigðs sambands við mat og líkama í þrennu lagi:

  1. (Líkams)vitund

  2. (Líkams)virðing

  3. Sjálfumönnun (e. self-care)

Til þess að geta hugsað vel um sig allan þarf að:

Vera með ákveðna meðvitund um sjálfa sig, læra að bæta líkamsvitund sína eða draga úr hindrunum sem standa í vegi fyrir góðri líkamsvitund (það eru ekki allir sem geta verið með góða líkamsvitund td vegna sjúkdóma og/eða lyfja en oft er hægt að vinna í kringum það), bera virðingu fyrir líkama sínum og sér sem manneskju og sjá til þess að vera með lágmarks (helst framúrskarandi) sjálfsumönnun. Það er alveg hægt að hugsa vel um sig án þessa sem ég tala hér um en aðeins upp að vissu marki að mínu mati og ég vil líka nefna að ég tel ekki að fólk ÞURFI að hugsa vel um sig ef það vill það ekki.


Það geta allir iðkað næringarinnsæi að einhverju marki en það eru vissulega forréttindi í því að geta iðkað þessa nálgun á heilsu. Það er erfiðara fyrir þá sem glíma við sum andleg og líkamleg veikindi og einnig fyrir þá sem búa ekki við mataröryggi (efni í annan pistil).


Iðkun næringarinnsæis er mótspyrna

Næringarinnsæi er mótspyrna við hvers kyns fordómum og hvetur til frelsunar einstaklingsins frá megrunarmenningunni. Við vitum að megranir virka ekki til lengri tíma. Og það að iðka heilsusamlega hegðun án áherslu á þyngdartap og að geta elskað sig og notið lífsins í hvaða líkama sem er, er viss uppreisn. Viva la revolution!


Ef þú vilt læra meira um næringarinnsæi hvet ég þig til þess að lesa pistlana og fréttabréfin frá mér, fylgja mér á Instagram, kynna þér sjálf/ur Intuitive Eating eða fylgja þeim fjölda af næringarinnsæisráðgjöfum um allan heim á samfélagsmiðlum.


Ef þú vilt aðstoð á þinni vegferð í átt að heilbrigðu sambandi við mat og líkama þá get ég hjálpað með bæði einstaklingsráðgjöf og hópstuðningi (og brátt vefnámskeiði) :)
p.s þessi pistill og bloggið almennt er ekki ætlað að koma í staðin fyrir heilbrigðisþjónustu. Leitaðu þér hjálpar hjá viðeigandi fagfólki ef þú glímir við líkamleg og/eða andleg vandamál.


0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page