top of page

Gefðu þér matarfrelsi í jólagjöf

Í staðin fyrir að fara í gegnum jólahátíðina með samviskubit og ógeð á sjálfri þér, hvet ég þig til að gefa þér fullkomið matarfrelsi í jólagjöf!



Leyfðu þér að borða það sem þig langar í um jólin - og alla aðra daga ársins! Og leyfðu þér líka að hætta þegar þú ert komin með nóg. Margir kvíða fyrir jólunum eða réttara sagt jólamatnum sem verður flæðandi í hverjum krók og kima. Þú finnur kannski fyrir streitu vegna þess þú ert með áhyggjur yfir því að geta ekki stoppað þegar þú byrjar að borða. Þér finnst kannski erfitt að segja nei við öllu góðgætinu þótt þú sért búin að fá nóg því þetta góðgæti kemur ekki aftur fyrr en á næsta ári. En málið er að þú ert ekki íkorni og maginn þinn er ekki trjádrumbur.. Leyfðu mér að útskýra.


Þú getur alltaf fengið þér svona mat þegar þér sýnist (ef hann er til)

Nú þegar þú ert orðin fullorðin þá mátt þú fara út í búð og kaupa það sem þér sýnist. Mikið af þessum mat sem við borðum á jólunum er oft líka til í búðinni aðra mánuði ársins. Þannig ef að þig langar í hangikjöt og kartöflumús eða konfekt og sörur þá getur þú farið og reddað því. Þú þarft sem sagt ekki að safna öllum þessum sparimat í magann á þér eins og íkorni safnar hnetum í tréhúsið sitt :)


Hins vegar er ekkert að því að njóta þess að borða þennan mat sem þú tengir við jólin. Þú átt heldur ekki að neita þér um þennan mat. Og þér hefur ekki mistekist ef þú borðar meira en þægilegt er, það gerist fyrir okkur öll af og til.


Loksins aftur jólaboð!

Margir eru örugglega glaðir að fá jólin í samt (svipað) horf og fá að mæta aftur í öll jólaboðin en sumir kvíða líka þessum tíma. Það getur verið erfitt þegar frænkan talar ekki um annað en hún ætli sko í átak í janúar eða frændi er að svindla á ketó eða amma hættir ekki að skammta á diskinn þinn eða vinnufélagi spyr hvort þú sért ekki búin að fá nóg. Einnig getur verið erfitt ef þér finnst þú þurfa eiga skilið að borða, sparar magann fyrir stóru máltíðina eða finnst þú þurfa að fara 2x oftar í ræktina í janúar.


Þú þarft ekki að taka þátt í þessu og besta jólagjöfin sem þú getur gefið þér er að vinna í því að öðlast heilbrigt samband við mat og líkama. Það er frelsið sem þú átt skilið.


Það er hægt að gera ýmislegt til þess að auðvelda sér þennan mánuð.


Nokkur ráð til að gera jólaboðin þæginlegri

  1. Ekki fara úr matarrútínu þinni þó að þú ert að fara í jólaboð. Ekki spara plássið í maganum fyrir kaffiboðið og sleppa því að borða hádegismat. Reyndu að halda inni þínum máltíðum og borða síðan það sem plássið í maganum leyfir í boðinu. Ef þú ferð of svangur í boð þá eru meiri líkur á að þú borðir þangað til þér verður illt. Note ég er ekki að segja að þú eigir að borða áður en þú ferð í boð bara til þess að þú borðir minna í boðinu.

  2. Einnig skaltu ekki breyta fæðuvenjum þínum/rútínu daginn eftir boðið. Þó að þú borðaðir mikið í gær, þarftu ekki endilega að borða minna í dag. Hlustaðu á svengd og seddu.

  3. Þegar þú mætir í boðið getur þú skannað hvað er á matarborðinu og séð hvað það er sem þig langar að smakka. Þá getur þú frekar mælt út hversu mikið af öllu þú færð þér svo þú hafir pottþétt pláss fyrir allt það sem þig langar að smakka.

  4. Njóttu þess að borða og reyndu að veita matarupplifuninni athygli. Það er alveg hægt að eiga samræður við fólkið í boðinu og taka eftir eiginleikum matarins á sama tíma. Hægðu bara aðeins á.

  5. Ef að þig langar ekki í eftirrétt þá máttu afþakka hann. Ekki troða í þig bara til að vera kurteis. Hins vegar ef þig langar mikið í eftirréttinn en þú ert orðin södd þá máttu líka alveg fá þér smá til að smakka. Eða jafnvel bíða aðeins og fá þér síðan. Það er ekkert að því að borða stundum aðeins meira en þæginlegt er.

  6. Leyfðu þér að sniðganga allt megrunartal í boðinu. Þú getur sagt að þú sért að reyna að bæta samband þitt við mat og líkama og viljir ekki ræða þessa hluti núna eða jafnvel skipt um umræðuefni eða labbað í burtu. Þegar nær dregur janúar verða komment um mat og líkama oft algengari og þú mátt fjarlægja þig frá þessu öllu ef þú þarft.

  7. Klæddu þig í þæginleg föt sem passa. Það er alveg hægt að vera sparilegur og líða þæginlega á sama tíma. Varastu föt sem þrengja að um of yfir magann. Það eykur líkurnar á magaónotum.


Hverju myndir þú bæta við þennan lista? Endilega kommentaðu við pistilinn og segðu mér hvernig þér líður yfir hátíðirnar.


Fleiri jólaráð

  • Mundu að drekka vel yfir hátíðirnar. Við borðum oft meira salt á þessum tíma og það er mikilvægt að vera vel vökvaður.

  • Haltu áfram að borða fjölbreytt og næra þig reglulega.

  • Sýndu þér mildi. Þú ert alltaf að gera eins vel og þú getur miðað við aðstæður og fyrri reynslu.

  • Varastu að smita þinni matar- og líkamsstreitu yfir á börnin þín. Þau eiga skilið að njóta jólanna í sakleysi sínu (eins og við öll).



Besta áramótaheitið er eitt sem endist, ekki enn eitt átakið


Ef þú vilt byrja nýja árið á því að bæta samband þitt við mat og líkama þá er námskeiðið mitt kannski eitthvað fyrir þig!





Einnig býð ég upp á hópstuðning en næsti hópur fer af stað 9 janúar. Vonast til að sjá þig þar!





p.s þessi pistill og bloggið almennt er ekki ætlað að koma í staðin fyrir heilbrigðisþjónustu. Leitaðu þér hjálpar hjá viðeigandi fagfólki ef þú glímir við líkamleg og/eða andleg vandamál.



0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page