
Það að ætla að bæta samband sitt við mat og líkama er ekki eitthvað dúllerí. Það getur tekið mikla vinnu og langan tíma að komast á stað þar sem þú upplifir þig með heilbrigt samband við mat og við líkama þinn en það fer eftir því hversu mörg ár þú hefur eytt í að vera í stríði við sjálfa/n þig og hversu dramatískt stríðið var.
Það getur tekið mikið á að byrja en það verður alltaf auðveldara með tímanum og bara það að þú sért að hugsa um þetta þá ertu komin af stað. Hér eru fimm skref sem gott er að byrja á þegar þú ætlar að bæta samband þitt við mat og líkama.
Fimm skref
Sagan
Staðan
Gildi
Þyngdarhlutlaust hugarfar
Líkamsvirðing
Sagan
Það er mikilvægt að vita hvernig maður hefur komist á þann stað sem maður er á í dag. Skoðaðu söguna þína. Hvernig var þetta þegar þú varst að alast upp? Spurðu foreldra þína ef getur um hvernig þú varst sem barn og krakki varðandi brjósta/pelagjöf, mat ofl sem tengdist líkamanum. Rifjaðu upp hvernig talað var um mat og líkama á heimilinu. Voru einhverjar sérstakar reglur í kringum mat heima hjá þér? Hvað fannst þér gott að borða og hvað vildirðu alls ekki? Hvernig hugsaðir þú um líkama þinn og annara? Hvenær fórstu að hafa tilfinningar um líkama þinn (slæmar og góðar)? Ef á við, hvenær fórstu fyrst í megrun/á eitthvað sérstakt mataræði? Ef á við hvaða kúra hefur þú farið á? Hvernig hefur líkami þinn breyst í gegnum tíðina? Oflofl.
Spurðu þig allra þessa spurninga og rifjaðu upp allt það sem þér dettur í hug varðandi samband þitt við mat og líkama*.
*ATH þegar rifjað er upp fortíðina geta komið upp erfiðar tilfinningar og ef á við geta gömul áföll skotið upp kollinum. Vertu viss um að þú sért tilbúin til þess að skoða söguna þína og að þú hafir einhvern til að tala við (helst menntaðan sérfræðing) ef að þú upplifir þessar tilfinningar.
Staðan
Horfðu síðan hreinskilningslega á stöðu þína í dag. Hvernig eru matarvenjur þínar í dag? Borðarðu reglulega eða bara einhvern tímann? Borðarðu með athygli eða tekur þú varla eftir því hvað þú borðaðir? Finnur þú fyrir svengd? En hvernig er svefninn og svefnvenjur þínar? Hreyfir þú líkama þinn? Ferðu einhverntíman út í náttúruna? Hvernig er streitustigið hjá þér? Ertu með jafnvægi milli heimilis og vinnu? Hvað með áhugamál og vinasambönd? Hvað finnst þér um líkama þinn? Hugsar þú vel um um hann eða líkar þér illa við hann? Oflofl.
Vertu eins hlutlaus og þú getur, ekki dæma þig ef þér finnst þú ekki gera eitthvað "rétt". Hér ertu bara að safna upplýsingum.
Gildi
Ég tel það mikinn galdur í því að meðvitað skoða hver gildin sín (e. core values) eru í lífinu. Þegar þú veist hver gildin þín eru þá skiptir allt það sem tengist ekki þessum gildum minna máli. Þú sérð heildarmyndina í staðin fyrir að festast í útlits-drama og öðrum ómerkilegum hlutum. Ég hvet þig til þess að skrifa niður 10-15 gildi og reyna svo að þrengja þau niður í 2-5. En þér er frjálst að gera þetta eins og það togar í þig. Ef þú hefur enga hugmynd um hver gildin þín eru er hægt að skoða ýmsa gildis-lista á netinu eins og td: Dare to Lead | List of Values - Brené Brown (brenebrown.com) eða hér Resources - The Minimalists og síðan fullt fullt fleira.
Þyngdarhlutlaust hugarfar
Farðu frá megrunarhugarfarinu og segðu nei við megrunarmenningunni. Þetta er stórt. Þú hefur kannski alla þína ævi lifað við þetta hugarfar að grannir líkamar séu betri en feitir og að þú þurfir að líta út á einhvern ákveðin hátt til að vera samþykkt/ur ekki bara af sjálfri/um þér heldur af samfélaginu. Og auðvitað viljum við vera samþykkt og vera meðtekin í hópinn, það er ein af okkar mannlegu þörfum. En það er blekking frá megrunarmenningunni að við þurfum að borða, haga okkur og líta út á einhvern ákveðin hátt til þess að vera nógu góð og eiga skilið ást og virðingu.
Þetta skref er í raun margþætt. Við þurfum að segja skilið við það að reyna að breyta líkama okkar, borða á einhvern fastmótaðan hátt (matur er góður eða slæmur) og líka að fræðast um hvernig líkamar okkar virka og hvað gerist í megrun og einnig fræðast um megrunarmenninguna í heild sinni, hvaðan hún kemur og hvaða áhrif hún hefur á fólk. Þetta skref er uppreisn!
Líkamsvirðing
Til þess að geta átt í heilbrigðu sambandi við mat og líkama þá þarf að sýna sér ákveðna (líkams)virðingu. Finndu leiðir til þess að sýna líkama þínum meiri virðingu td með því að sættast við hann eins og hann er í dag, gefa þér reglulega að borða yfir daginn, hvíla þig þegar þú þarft, klæðast fötum sem passa, borða oftast mat sem þér líður vel af, hreyfa þig reglulega, fara til læknis þegar þarf, viðhalda hreinlæti og jafnvel dekra við þig ofl ofl.
Þetta skref tekur æfingu því þegar þú hefur lengi verið í stríði við líkama þinn þá getur verið erfitt að verða vinur hans. En mundu að þú þarft ekki að elska útlit eða virkni líkama þíns til þess að sýna honum virðingu. Ástin kemur vonandi með tímanum.
Ég vona að þetta hjálpi þér að byrja á þinni vegferð í átt að heilbrigðu sambandi við mat og við líkama þinn. Ég fer nánar útí þessi skref og mun fleiri á námskeiðinu mínu sem opnar í janúar 2023. Ef þú vilt veglegan afslátt af námskeiðinu þegar það opnar, skráðu þig þá á póstlistann minn á heimasíðunni :)
p.s þessi pistill og bloggið almennt er ekki ætlað að koma í staðin fyrir heilbrigðisþjónustu. Leitaðu þér hjálpar hjá viðeigandi fagfólki ef þú glímir við líkamleg og/eða andleg vandamál.
