top of page

Þarf ég að fara til næringarfræðings?


Íslendingar hafa ekki verið duglegir í gegn um tíðina að sækja sér þjónustu næringarfræðings (mín upplifun allavega), bæði kannski vegna skorts á næringarfræðingum sem taka á móti skjólstæðingum utan Landspítala og kannski vegna kostnaðar (ekki niðurgreitt en sum stéttarfélög taka þátt í kostnaði). Þrátt fyrir að þetta er að breytast að þá held ég að það sem aftri fólki að fara til sérfræðings í næringu (ath læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar, einkaþjálfarar, áhrifavaldar osfrv eru ekki sérfræðingar í næringu) er að það veit hreinlega ekki hvað næringarfræðingar gera. Eða þá að fólk haldi að eingöngu sé hægt að fara í næringarráðgjöf ef útí óefni er komið (mismunandi hvernig fólk túlkar óefni). Eða hreinlega að fólk haldi að Herra Gúgul geti hjálpað þeim eins vel og næringarfræðingurinn.


By the way ég hef ekkert á móti þessum stéttum sem taldar eru upp hér að ofan heldur vill bara taka það skýrt fram að löggiltir næringarfræðingar eru sérfræðingar í næringu. Ást og friður.Hvert er starf næringarfræðings?


Margir halda að starf næringarfræðings felst í því að breyta líkamsvexti fólks, skamma það fyrir "óhollustuna" og leyfa þeim bara að borða eitthvað ákveðið. Vissulega hjálpum við fólki að auka næringargildi mataræðis síns en samkvæmt mínum bókum er engin matur bannaður og engin einn matur æðri en annar. Allt er gott í hófi eins og sagt er.


Næringarfræðingar sinna allskonar störfum og vinna á allskonar stöðum t.d á spítölum, heilsugæslum (mætti vera meira um það), íþróttastöðvum, matvælafyrirtækjum, háskólum ofl.

Hefðbundið er fyrir næringarfræðing að starfa við næringarráðgjöf eða rannsóknir. Margir næringarfræðingar sem sinna ráðgjöf hafa tekið að sér 1-3 hópa fólks og sérhæfa sig í þeim. Þannig er hægt að fara til næringarfræðings sem er vel að sér í meltingu/átröskun/íþróttum/matarhegðun/ofnæmi osfrv. Ef þú glímir við sérstakt vandamál og/eða sjúkdóm mæli ég með að leita til klínísks næringarfræðings/næringarráðgjafa. Endilega sendu mér skilaboð ef þig vantar sérhæfðan næringarfræðing og ég hjálpa þér að finna þann rétta.Hverjir fara til næringarfræðings?


Það geta verið ótal ástæður fyrir því að leita til næringarfræðings. Þó að algengt er að fólk sem þjáist af sjúkdómum, er íþróttarfólk sem vill hámarka afköst, glími við átröskun ofl komi helst í næringarráðgjöf þá er ekkert sem segir að venjulegt, heilbrigt fólk ætti ekki að fara líka. Eins og fólk fer til tannlæknis þrátt fyrir að vera ekki með skemmd eða fer með bílinn sinn í skoðun þrátt fyrir að ekkert sé að, að þá er eðlilegt að fara til næringarfræðings "bara" í skoðun og spjall.


Flestir sem koma til mín eru komnir í ákveðin vanda með mataræði sitt eða heilsu sína. Og þeir sem vilja vinna með mér sérstaklega vita að ég vil hjálpa þeim að öðlast heilbrigt samband við mat og bæta svokallaða heilsuhegðun þeirra.


Ef þú telur kaloríur/macros, ert með mat á bannlista, borðar óreglulega, binge-ar, sækist stöðugt í eitthvað nart, fastar/sveltir þig, borðar einhæft, ert oft orkulaus og þreytt/þreyttur, færð samviskubit eftir að hafa borðað eitthvað ákveðið, stundar hreyfingu sem andsvar við mat, líkar illa við líkama þinn, átt í streitusambandi við mat ofl þá hvet ég þig eindregið til þess að leita til næringarfræðings.Leitaðu til sérfræðings


Með öllum þeim misgóðu upplýsingum sem bíða okkar á netinu/samfélagsmiðlum/fréttamiðlum osfrv þá getur verið erfitt að vita hverju skal fylgja og talandi ekki um þegar megrunarmenningin hefur troðið sér í alla kima samfélagsins. Það er erfitt að vita hvað hentar hverjum persónulega og jafnvel erfitt fyrir fólk að treysta líkama sínum þegar allt sem það sér eru skilaboðin:


ÞÚ VERÐUR AÐ VERA GRENNRI, FLOTTARI, BETRI, HRAÐARI, VINSÆLLI!


Þess vegna getur verið dýrmætt að leita til sérfræðings sem getur hjálpað þér að greiða úr öllu bullinu (mæli með sérfræðing sem notast við þyngdarhlutlausa nálgun).


Það er alltaf að fjölga í hópi okkar næringarfræðinga sem taka á móti skjólstæðingum í ráðgjöf og við erum eins ólík og við erum mörg. Þannig að nálgun okkar getur verið mismunandi þó að við eigum öll að fylgja bestu vísindalegu þekkingu hverju sinni.


Ef að þú hefur einhverntímann farið til næringarfræðings og líkað illa þá hvet ég þig til að finna einhvern annan til að sinna þér. Ef þú hefur áhuga á að vinna með mér geturðu pantað tíma hér eða sent mér póst á hallo@elisabetheidur.is. Einnig get ég með glöðu geði komið þér í samband við aðra næringarfræðinga ef mín þjónusta hentar þér ekki.Eigðu yndislega viku :)


p.s þessi pistill og bloggið almennt er ekki ætlað að koma í staðin fyrir heilbrigðisþjónustu. Leitaðu þér hjálpar hjá viðeigandi fagfólki ef þú glímir við líkamleg og/eða andleg vandamál.

0 comments

Recent Posts

See All
bottom of page